Skúli Bjarnason, lögmaður Gunnars Þ. Andersen forstjóra Fjármálaeftirlitsins (FME), krefst þess að Oddný Harðardóttir fjármálaráðherra, úrskurði um réttarstöðu Gunnars. Hann vill að tekinn verði af allur vafi og að skýrt liggi fyrir að Gunnar og embætti hans falli undir lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og að Gunnar njóti réttarverndar sem embættismaður ríkisins.

Skúli sendi ráðherra í dag beiðni um úrskurð um starfsréttindi. „Umbjóðandi minn á nú i deilu við stjórn FME vegna boðaðrar uppsagnar. Deilt er um lögmæti uppsagnarinnar en umbjóðandi minn telur hana efnislega ólömgæta. Þá liggur einnig fyrir að stjórn FME hefur í ferli málsins fram að þessu virt að vettugi réttindi umbjóðanda míns sem embættismanns. Stjórn stofnunarinnar hefur ekki fallst á að hann njóti réttarstöðu embættismanns og virðast vera uppi ráðgerðir um að framhalda uppsagnarferlinu algerlega án tillit til þess,“ segir í upphafi bréfsins.

Aðalsteini Leifssyni, formanni stjórnar FME, var einnig sent andmælabréf í dag vegna fyrirhugaðrar uppsagnar. Frestur sem stjórn FME gaf rann út í dag en Gunnar telur að frestur byrji ekki að telja fyrr en úrskurður fjármálaráðherra liggi fyrir. Þá er fyrri afstaða ítrekuð um að frestur byrji ekki að telja fyrr en fullnægjandi svör fáist við spurningum Gunnars til stjórnar. Þær spurningar snúa meðal annars að „meintum nýjum gögnum“ í málinu.

Líkt og greint hefur verið frá ákvað stjórn FME að tilkynna Gunnari um fyrirhugaða uppsögn hans, í kjölfar skýrslu Ástráðar Haraldssonar og Ásbjarnar Björnssonar um störf Gunnars fyrir Landsbankann á árinu 2001. Lögmaður Gunnars og stjórn FME hafa frá miðjum febrúarmánuði skrifast á og deilt um lögmæti uppsagnarinnar og á hverju hún byggir.