Þingfest verður fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á morgun krafa á hendur Hannesi Smárasyni, forstjóra FL Group, bæði persónulega og fyrir hönd fyrirtækisins um greiðslu á 266 milljónum króna vegna kaupa félagsins á Bláfugli og Flugflutningum.

Stefnandi er Kristinn Rúnar Kjartansson en hann telur sig hafa komið á kaupum FL Group á fyrrgreindum félögum sem áttu sér stað fyrir ári. Kaupverðið var fjórir milljarðar króna og telur Kristinn Rúnar sig eiga rétt á kaupþóknun fyrir að hafa komið kaupanda og seljanda saman. Lögmaður Kristins Rúnars er Sveinn Andri Sveinsson hrl. og í samtali við hann kom fram að lögð verður fram krafa um dómkvaddan matsmann með stefnunni til þess að skera úr um hvað eðlileg kaupþóknun getur talist. Að sögn Sveins Andra er það gert vegna þess hve fá fordæmi eru fyrir slíku hér á landi. Erlendis er hins vegar mun meiri hefð fyrir slíkum þóknunum, sem þar kallast "finder's fee".

Atvik máls eru með þeim hætti að haustið 2004 kom Kristinn Rúnar að máli við Hannes Smárason, forstjóra og þá stjórnarformann FL Group, og vakti athygli hans á því tækifæri sem fælist í því að kaupa fyrirtækin Bláfugl og Flugflutninga, sem voru í eigu bróður hans, Þórarins Kjartanssonar, og fleiri einstaklinga. Eftir að kaupin urðu að veruleika telur Kristinn Rúnar sig eiga inni kaupþóknun hjá FL Group.

Sjá nánar Viðskiptablaðið í dag.