United Airlines mun setja kröfu á alla virka starfsmenn sína í Bandaríkjunum að vera orðnir bólusettir í haust. United er fyrsta bandaríska flugfélagið sem innleiðir þetta skilyrði í starfsmannastefnu sína. Financial Times greinir frá.

Flugfélagið, sem er með höfuðstöðvar í Chicago, tilkynnti í dag að allir starfsmenn þurfi að vera bólusettir annað hvort fyrir 25. október næstkomandi eða fimm vikum eftir að Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna samþykkir formlega Covid-19 bóluefni, hvort sem kemur á undan.

Starfsmenn sem sýna fram á að hafa farið í bólusetningu fyrir 20. september munu fá greiddan auka vinnudag.

„Við vitum að sum ykkar eru ósammála þessari ákvörðun að krefjast bólusetningar meðal starfsmanna United,“ skrifa forstjórinn Scott Kirby og forsetinn Brett Hart í bréfi til starfsmanna. „Hins vegar berum við þá miklu ábyrgð til ykkar og kollega ykkar að tryggja öryggi ykkar á vinnustaðnum og staðreyndirnar eru skýrar: allir eru öruggari þegar allir eru bólusettir.“