Vilhjálmur Bjarnason, dósent við Háskóla Íslands og hluthafi í Straum-Burðaráss hefur, ásamt dætrum sínum, krafist bóta af stjórn Straums Burðaráss eftir að stjórnin seldi ónafngreindum aðila hlutafé undir markaðsverði.

Þetta kemur fram á fréttavef RÚV en þar kemur fram að tapið kann að nema rúmum 750 milljónum króna. Stjórnin hefur ekki fengist til að greina frá því hver kaupandinn er.

Í frétt RÚV kemur fram að málið er höfðað vegna sölu stjórnarinnar á 550 milljónum hluta í Straumi á gengi sem var undir markaðsgengi.

Guðni Á. Haraldsson, lögmaður Vilhjálms og dætra hans, segir að hæsta gengi þennan dag hafi verið rétt tæpar 20 krónur á hlut en salan hafi verið á gengi sem var rúmri krónu lægra. Samtals seldi því stjórnin hlutaféð á 10,2 milljarða króna en hefði getað fengið tæpa 11 milljarða fyrir það. Tapið er því upp á rúmar 750 milljónir króna.

Héraðsdómur Reykjavíkur tók málið fyrir í morgun.

Sjá nánar vef RÚV.