Horfur eru á fyrstu kreppunni frá bankahruni hér á landi. Arion banki spáði í gær að landsframleiðsla myndi dragast saman um 1,9% á þessu ári félli Wow air. Þá bjóst Arion banki við því að ferðamönnum myndi fækka um 16%, og störfum í ferðaþjónustu fækka um 2.500 manns. Hagspáin sem var nokkuð dökk gerði ráð fyrir að jafnvel þó að Wow air hefði lifað sína erfiðleika af hefð landsframleiðsla dregist saman um 0,8%, ferðamönnum fækkað um 9% og þúsund störf í ferðaþjónustunni tapast.

Þumalputtaregla er að tala um kreppu þegar landsframleiðsla dregst saman tvo ársfjórðunga í röð að því er fram kemur í svari Gylfa Magnússonar, dósents í Háskóla Íslands og formanns bankaráðs Seðlabankans, á Vísindavefnum .

© vb.is (vb.is)

Staða þjóðarbúsins þó sterk

Erna Björg Sverrisdóttir, sérfræðingur hjá greiningardeild Arion banka, sagði í gær að þrátt fyrir dökka hagspá væru grunnstoðir  hagkerfisins sterkar og það betur í stakk búið að takast á við niðursveiflu en oft áður. Skuldastaða heimila, fyrirtækja og ríkisins væri góð, erlend staða þjóðarbúsins ævintýralega sterk og gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins byggi á breiðari grunni en áður.

Atvinnuleysi líklegra en verðbólguskot

Sennilegt sé að birtingarmynd samdráttar hagkerfisins komi fram í meira mæli í auknu atvinnuleysi fremur en gengisfalli og verðbólgu líkt og Íslendingar hafi oftar fengið að finna fyrir í gegnum árin. Af yfirlýsingum peningastefnunefndar megi ráða að Seðlabankinn sé tilbúinn að halda aftur af verðbólgu á kostnað hækkandi atvinnuleysis. Seðlabankinn eigi yfir 600 milljarða króna  gjaldeyrisvaraforða og geti þannig haldið aftur af veikingu á gengi krónunnar að vissu marki með inngripum á gjaldeyrismarkaði. Arion banki spáir því að atvinnuleysi hækki í 4,4% á þessu ári og 4,8% á næsta ári eftir brotthvarf Wow air. Atvinnuleysi mældist undir 3% á síðasta ári. Verðbólga verði nærri 4% á þessu ári og hækki upp í 4,7% á næsta ári.

Gengi krónunnar þegar lækkað nokkuð

Þá eru gengisáhrif af stöðvun Wow minni en margir telja ef marka má hagspána. Hætti Wow rekstri mun gengi krónunnar veikjast lítillega gagnvart evru á þessu ári og hver evra kosta um 139 krónur. Það er nokkuð minna en til að mynda Gústaf Steingrímsson, hagfræðingur í hagfræðideild Landsbankans, spáði í Morgunblaðinu í vikunni. Hann taldi að evran gæti allt eins fallið í 150 krónur félli Wow air. Erna Björg benti á að krónan hefði þegar veikst nokkuð í vetur. Krónan er 10% veikari gagnvart evru en hún var þegar fyrst var sagt frá fyrirhugðu skuldabréfaútboði Wow air um miðjan ágúst. Greiningardeildin gerir engu síður ráð fyrir að krónan muni veikjast á næstu tveimur árum sé miðað við við raungengi hennar, og gengi krónunnar verði komið í 142 gagnvart evru árið 2021, þó að Wow verði áfram í rekstri.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .