Kreppa er hafin á ný í Grikklandi samkvæmt hefðbundnum skilgreiningum, en samdráttur á fyrsta fjórðungi mældist 0,2% eftir 0,4% samdrátt á fjórða ársfjórðungi síðasta árs. Almenn skilgreining á kreppu eru tveir eða fleiri fjórðungar þar sem samdráttur mælist. Í frétt Wall Street Journal segir að deilur Grikkja við erlenda lánadrottna séu greinilega að hafa áhrif til hins verra.

Óvissa um getu Grikkja til að standa í skilum við lánadrottna á þessu ári er enn mjög mikil og eru einhverjar líkur taldar á greiðslufalli jafnvel í sumar. Slíkt gæti svo leitt til þess að Grikkland hrökklist úr evrusamstarfinu. Allt frá hruninu 2008 hefur hagkerfi Grikklands skroppið saman um fjórðung.