Frá sumrinu 2014 hefur þrengt að norskum efnahag sem aldrei fyrr í kjölfar hríðfallandi verðlags á olíu. Undanfarna mánuði hefur olíuverð að vísu tekið við sér en er þó langt frá fyrri hæðum. Í efnahagsspá framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sem kom út í síðasta mánuði er einungis gert ráð fyrir 1,2 prósenta hagvexti í Noregi í ár og 1,7 prósenta hagvexti árið 2017. Hagvöxtur í Noregi var 1,6 prósent á síðasta ári.

Útflutningur á olíu nemur alls 67 prósentum af heildarútflutningi Noregs og 22 prósentum af vergri landsframleiðslu. Landið er einn stærsti olíuútflytjandi heims og varð því fyrir miklu efnahagslegu áfalli er verð á hráolíu hóf að hrynja í lok sumars 2014. Botninum virðist hafa verið náð þegar tunnan af hráolíu féll niður í 26 dollara í febrúar á þessu ári en síðan þá hefur olíuverð tæplega tvöfaldast. Enn er þó langt í hæðir ársins 2014, þar sem tunnan kostaði 105 dollara fyrir verðhrun.

Fimmti hver yfirgefur Statoil

Norska ríkið á 67 prósenta hlut í stærsta olíufélagi landsins, Statoil, en þar hefur starfsmönnum fækkað umtalsvert frá því að olíuverð fór að falla. Í árslok 2013 störfuðu um 23.400 manns hjá félaginu en tveimur árum síðar voru þeir einungis 21.600. Í árslok 2016 er stefnt á að starfsmenn félagsins verði færri en 20.000, sem þýðir að nærri einn af hverjum fimm starfsmönnum fyrirtækisins í árslok 2013 verður horfinn.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .