Venesúelski seðlabankinn greindi í gær frá því að hagkerfið þar í landi hefði skroppið saman um 2,3% á þriðja ársfjórðungi. Þá var í fyrsta skipti sagt frá því að hagkerfið hefði skroppið saman um 4,8% á fyrsta fjórðungi og 4,9% á öðrum fjórðungi ársins. Samkvæmt hefðbundnum mælikvörðum er því kreppa hafin í landinu.

Forseti landsins, Nicolas Maduro, sagði pólitískan óstöðugleika og lækkandi olíuverð hafa haft mest áhrif á það hvernig farið hefur, en Venesúela er mjög háð olíuútflutningi.

Sakaði Maduro Bandaríkin um að hafa dælt meiri olíu inn á markaðinn en eftirspurn var fyrir til að ná höggi á Rússland.

Verðbólga í nóvember mældist 63,6% í nóvember og er óvíða meiri í heiminum.