Búist er við að kreppumerkin verði greinileg á evrusvæðinu á síðustu þremur mánuðum nýliðins árs eða á fyrri hluta nýhafins árs, að mati Howard Archers, hagfræðings hjá greiningarfyrirtækinu IHS Global Insight í London.

Angela Merkel & Nicolas Sarkozy
Angela Merkel & Nicolas Sarkozy
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Archer sendi viðskiptavinum fyrirtækisins bréf daginn fyrir Gamlársdag og fer þar yfir vandann sem evruríkin hafi verið að glíma við um nokkurra missera skeið. Hann tíundar að skuldakreppan á evrusvæðinu og mikill halli á ríkisrekstrinum hafi dregið mjög úr þrótti evruríkjanna, skatttekjur hins opinbera hafi dregist saman og atvinnuleysi aukist. Þessi blanda muni valda því að hagkerfið muni þegar upp verði staðið skreppa saman um 0,7% á árinu.

„Það er mikilvægt að ráðamenn taki málið föstum tökum,“ skrifar hann.

Þau Angela Merkel, kanslari Þýskalalands, og Nicolas Sarkozy, Frakklandsforseti, endurtaka leikinn frá á nýliðnu ári og hafa sett nokkra fundi á dagskrá sem flestir hverjir lúta að því að leysa úr vanda evruríkjanna. Fyrsti fundurinn er á dagskrá í Berlín á mánudag í næstu viku.

Í umfjöllun Bloomberg-fréttaveitunnar um slæma stöðu evruríkjanna kemur fram að leiðtogarnir þurfi að haska sér. Á fyrsta ársfjórðungi eru nefnilega á gjalddaga lán evruríkjanna upp á 157 milljarða evra, jafnvirði um 25 þúsund milljarða íslenskra króna.