Í samantekt Viðskiptaráðs, á skiptingu Covid-úrræða hins opinbera milli heimila og fyrirtækja, er þess enn fremur getið að ekki dugi að horfa aðeins á hve mörgum milljörðum hefur verið varið til hvors hóps um sig heldur þurfi einnig að taka tillit til þess að efnahagslegar afleiðingar hafa lent með mismunandi hætti á atvinnugreinum og hópum fólks. Til að mynda hefur ferðaþjónustan nánast verið í frosti á meðan verslun innanlands hefur vaxið ásmegin. Þá hefur kreppan lent af fullum þunga á einstaklingum sem hafa lent í atvinnumissi á meðan aðrir hafa það, svona eftir atvikum, ágætt.

„Ein birtingarmyndin er að kreppan hefur almennt lagst af meiri þunga á fyrirtæki heldur en heimili, eins langt og slíkur samanburður nær. Annars vegar vegna þess að ráðstöfunartekjur heimila jukust almennt um 5% milli ára fyrsta hálfa ár faraldursins en til samanburðar drógust tekjur fyrirtækja saman um 8% milli ára á síðasta ári,“ segir í samantekt VÍ. Umfang lána í greiðslufrystingu renni einnig stoðum undir þetta.

Áætlanir hins opinbera gera ráð fyrir því að það muni reyna að taka höggið á kassann eftir því sem frekast er unnt. Fjárlög gildandi árs gera til að mynda ráð fyrir að halli ríkissjóðs verði um 264 milljarðar króna á árinu og að samanlagður halli til ársins 2025 verði um 900 milljarðar króna. Það er því ekki að sjá að rými fyrir frekari aðgerðapakka sé mikið á næstunni.

„Það er hugsanlegt að svigrúm sé til staðar fyrir eilítið meiri hallarekstur – ekki að ég mæli með slíku – en það væri þá ekki mikið. Sem stendur er verðbólgan yfir markmiði og ef maður horfir fram á veginn er ekki annað að sjá en að hún verði það eitthvað áfram. Það sem mestu máli skiptir er hins vegar að hallinn styðji við verðmætasköpun til lengri tíma og hvernig hann er í samanburði við aðrar stærðir,“ segir Konráð.

Skýrar leikreglur þegar fram í sækir

Höfuðmarkmiðið nú ætti að vera að setja aukið púður í aðgerðir sem draga úr atvinnuleysi. Til að mynda mætti hvetja til fjárfestingar, til að mynda með hnitmiðuðum skattalækkunum og færri reglugerðarhindrunum, og leita nýrra leiða til að koma atvinnulausum aftur til starfa. Til að mynda gætu stjórnvöld hvatt fyrirtæki, með skýrum og afdráttarlausum hætti, til að nýta sér ráðningarstyrki Vinnumálastofnunar.

„Þegar hlutabæturnar voru kynntar til sögunnar þá voru rekstraraðilar hvattir til að nýta sér úrræðið í algjörri óvissu. Síðan þegar félög gerðu það lentu mörg hver í því að þurfa að grípa til varna vegna umræðunnar. Mörg fyrirtæki eru brennd og virðast hugsa sig tvisvar um áður en þau nýta sér úrræðin sem standa til boða,“ segir Konráð. „Það er gífurlega mikilvægt nú, þegar við blasir að hækka þarf atvinnustigið, að leikreglurnar verði skýrar fyrirfram þannig að rekstraraðilar haldi ekki að sér höndum í þessari baráttu af ótta við að skammir fylgi breyttri vindátt.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .