*

þriðjudagur, 2. júní 2020
Erlent 3. janúar 2013 13:41

Kreppan bítur í Ferrari og Lamborghini

Sala á fokdýrum ítölskum sportbílum dróst mikið saman á síðasta ári.

Ritstjórn
Aðrir ljósmyndarar

Skuldakreppan á evrusvæðinu kom illa við auðuga Ítali sem héldu að sér höndum á síðasta ári. Sala á ítölskum hraðskreiðum sportbílum dróst mikið saman þar í landi á nýliðnu ári. Aðeins 116 nýir bílar undir merkjum Maserati voru seldir á Ítalíu í fyrra. Þetta var 72% samdráttur frá árinu 2011. Öllu fleiri Ferrari bílar runnu úr sýningarsölum á sama tíma eða 248. Það var engu að síður 56% samdráttur á milli ára. Samdrátturinn var minni hjá sportbílaframleiðandanum Lamborghini, sem horfði upp á aðeins 16,6% samdrátt á milli ára. Ekki seldust þó margir bílar af þeirri gerðinni eða 60. Að meðaltali dróst bílasala á Ítalíu saman um 19,9% á milli ára og hefur salan ekki verið verri síðan árið 1979.

Ekki er um neinar smákerrur að ræða en einn Ferrar kostar frá 50 milljónum íslenskra króna.

Luca di Montezemolo, stjórnarformaður Ferrari, segir í samtali við Reuters-fréttastofuna, kreppuna hafa sett mark sitt á bílasölu í fyrra. Bílasalan sé ekkert einsdæmi enda sé niðursveifla almennt með munaðarvörur. 

Stikkorð: Ferrari Lamborghini Maserati