Verð á kaffi hefur lækkað um rúm 40% síðan það náði hæstu hæðum í fyrra. Ástæðan fyrir þessu er sú að dregið hefur úr eftirspurn hjá kaffiþyrstum þjóðum á borð við Spánverjum og Ítölum sem glíma við efnahagsþrengingar um þessar mundir. Þessi samdráttur hefur skilað sér í verðlagningu á drykknum dökka. Aukið kaffiþamb í Þýskalandi og Frakklandi hefur ekki náð að halda verðinu uppi.

Ítalir og Spánverjar eru á meðal helstu kaffidrykkjuþjóða Evrópu. Þjóðverjar drekka mest allra af kaffi en Frakkar verma þriðja sætið.

Fjallað er um málið í breska viðskiptablaðinu Financial Times í vikunni. Þar sagði m.a. að kaffineysla á Spáni og Ítalíu sé álíka mikil nú um stundir og fyrir fimm til sex árum.