Samdráttur í heimsbúskapnum, spenna á milli Írans og Vesturlandanna og verðhækkun mun skila því að eftirspurn eftir olíu og eldsneyti verður minni um heim allan á næsta ári en þessu, að mati Alþjóðlegu ráðgjafarstofnunarinnar í orkumálum (IEA). Spá stofnunarinnar er á svipaða lund og sú sem Samtök olíuútflutningsríkja (OPEC) hafa gefið út.

IEA gerir ekki ráð fyrir því að verð á hráolíu muni lækka mikið frá því sem nú er fyrr en dregur úr spennu fyrir botni Miðjarðarhafs. Þá segir í spá stofnunarinnar að þótt framleiðsla sem að komast á fullt skrið á ný í Líbíu, Írak og Nígeríu þá sé langt frá því að stöðugleiki sé kominn þar á og þurfi lítið til að skrúfa fyrir framleiðsluna aftur.

Heimsmarkaðsverð á hráolíu hefur legið í kringum 100 til 110 dali á tunnu í sumar en fór undir 90 dalina til skamms tíma þegar Sádí-Arabar juku framleiðslu sína.