Niðurstaða vinnumarkaðskönnunar Hagstofunnar sem birt var í morgun bendir til að kreppan grafi sig enn dýpra hér á landi. Viðsnúningur varðandi þá þróun er ekki vænta fyrr en viðunandi hagvöxtur sést að nýju.

Þetta segir í Morgunkorni Íslandsbanka sem fjallar um vinnumarkaðskönnunina í dag.

Líkt og greint var frá í morgun voru að meðaltali 13.200 án atvinnu og í atvinnuleit á 4. ársfjórðungi 2010 eða 7,4% vinnuafls. Atvinnulausum fjölgaði um 1.200 manns frá fjórða ársfjórðungi 2009 en þá var atvinnuleysi 6,7%.

Atvinnuleysi svipað og í mörgum nálægum löndum

„Þó svo að atvinnuleysi hafi aukist hratt hér á landi er það enn engu meira en við sjáum í mörgum nálægum löndum. Þannig var árstíðarleiðrétt atvinnuleysi í nóvember síðastliðnum um 10,1% á evrusvæðinu og 9,6% í ESB ríkjunum að meðaltali. Í Bandaríkjunum var atvinnuleysi 9,8% á sama tímabili,“ segir í Morgunkorni.

„Mikil aukning hefur verið í fjölda langtímaatvinnulausra hér á landi frá því fyrir hrun en það er sá hluti atvinnuleysis sem almennt er litinn alvarlegustum augum. Um 3.200 manns höfðu verið atvinnulausir í 12 mánuði eða lengur á 4. ársfjórðungi í fyrra eða um 24% atvinnulausra. Á sama tímabili 2009 höfðu 14% atvinnulausra verið án atvinnu í svo langan tíma. Á sama tíma 2008 var þetta hlutfall 2,5%. Af þessum tölum má ráða að fólk er mun frekar að festast í atvinnuleysinu nú en var fyrir hrun.

Á 4. ársfjórðungi 2009 mældist atvinnuþátttaka 79,9% en á sama tíma árið 2008 mældist hún 80,3%. Á fjórða ársfjórðungi 2007 var atvinnuþátttakan 81,7%. Þess má geta að þrátt fyrir að atvinnuþátttakan hafi minnkað hér á landi þá er hún enn mikil í samanburði við löndin umhverfis okkur. T.a.m. mældist atvinnuþátttakan á árinu 2009 68% í Bandaríkjunum og 65% á evrusvæðinu og í ríkjum ESB að meðaltali.

Starfandi fólki fækkar og vinnutíminn styttist
Á 4. ársfjórðungi síðasta árs voru 165.600 starfandi í landinu sem er 900 færri en voru starfandi á sama ársfjórðungi 2009 og 3.600 færri en voru starfandi á þessum ársfjórðungi 2008. Fólk hefur því dregið sig út af íslenskum vinnumarkaði í kreppunni og sækir í auknum mæli í t.d nám.

Margir hafa orðið á að taka á sig skerðingu á starfshlutfalli í kreppunni. Á meðal þeirra sem eru starfandi hefur orðið nokkur fjölgun í hópi þeirra sem eru í hlutastarfi en á móti hefur þeim fækkað umtalsvert sem eru í fullu starfi. Þannig voru 47.800 starfandi í hlutastarfi á 4. ársfjórðungi 2009 en höfðu verið 45.500 á sama tíma 2009. Á sama tímabili fór fjöldi starfandi í fullu starfi úr 121.000 í 117.800. Á sama tímabili 2007 var fjöldi starfandi í fullu starfi 135.100.

Vinnutíminn heldur áfram að styttast. Þannig var vinnutíminn að meðaltali 38,3 stundir á viku á fjórða ársfjórðungi í fyrra en var 38,9 stundir á sama ársfjórðungi 2009 og 40,8 stundir á sama tíma 2007 eða fyrir hrun. Vinnuvikan er því 2,5 stundum styttri nú en hún var fyrir hrun.“