Kreppan hér á landi virðist hafa ýtt undir bætta heilsuhegðun samkvæmt nýrri rannsókn sem Háskóli Íslands gaf út í samvinnu við Robert Wood Johnson Medical School og Rider University.

Reykingar, áfengisdrykkja, neysla sykraðra drykkja og skyndibitafæði hefur minnkað hjá Íslendingum ásamt ljósabekkjanotkun. Hinsvegar hefur einnig dregið úr heilusamlegri hegðun eins og ávaxta- og grænmetisneyslu á meðan aukning varð á notkun lýsis og svefni. Hegðunarbreytingin var meiri hjá fólki á vinnualdri.

Fram kemur í rannsókninni að þar sem verð á Íslandi hafi hækkað á árunum 2007-2009 hafi fólk ekki verið jafn viljugt að greiða fyrir óheilsusamlega hegðun, sem oft á tíðum hækkaði töluvert í verði, enda oft innflutt eða framleiðsla hennar byggð á innfluttum aðföngum.

Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, lektor í hagfræði við Háskóla Íslands, vann að gerð rannsóknarinnar. “Fólk heldur yfirleitt að heilsu hraki mjög í efnahagsþrenginum en oft á tíðum er það þannig að kreppur eru hagfelldar fyrir heilsu, þó vissulega séu undantekningar þar á varðandi ákveðin heilsufarsmál”, segir Tinna. Hún segir kreppuna hér á landi hafa verið skarpa og því hafi skilin á milli uppsveiflu og efnahagslægðar verið mjög skýr sem gerði Ísland að góðri og hreinni tilraunastofu fyrir þessa rannsókn. Gæði gagna sem til eru leiði síðan til þess að rannsóknaraðstaðan sé eins og í stofu vel útbúinni af efnum og tækjum.