Til þessa hefur ríkjandi fjármagnskreppa kostað stærstu banka og fjármálafyrirtæki heims um 500 milljarða dollara, eða sem jafngildir 41 billjón (þúsund milljarðar) íslenskra króna, að mati bandarísks greiningarfyrirtækis.

Þar af reiknast 350 milljarðar dollara, eða sem jafngildir um 28,7 billjónum króna, vegna hlutafjáraukningar umræddra félaga í kjölfar harðinda á markaði.

Þessar tölur byggja á rannsókn greiningarfyrirtækisins RGE Monitor, undir stjórn Nouriel Roubini, professors við New York University.

Um það bil helmingur umræddra afskrifta fellur á bandarísk félög, en nánast jafnmikið fellur á evrópsk fjármálafyrirtæki og stofnanir.

Félög í Asíu hafa hins vegar til þessa komist stóráfallalaust frá þrengingunum. Sá aðili sem mestu hefur tapað er bandaríski risabankinn Citigroup, sem RGE Monitor telur hafa afskrifað 55 milljarða dolla, auk þess að bæta við sig 49 milljörðum dollara í nýtt hlutafé.

Á meðal annarra þeirra sem þolað hafa þungar skráveifur má nefna Merrill Lynch og UBS.

Munu 2 billjónir dollara tapast?

Menn deila um hvort hið versta sé afstaðið eður ei, en þó telur Alþjóðgjaldeyrirsjóðurinn IMF (International Monetary Fund) að tap fyrirtækja heimsins vegna fjármálakreppunnar muni áður en yfir lýkur nema 1 billjón bandaríkjadala, að því er fréttastofa Reuters greinir frá.

Roubini er ennþá svartsýnni og  telur að þegar göngunni um dimma dali efnahagskreppunnar ljúki muni tapið nema 2 billjónum bandaríkjadala, þ.e. fjórfalt meira en nú liggur fyrir.