Byggingamarkaðurinn er helfrosinn og fjöldi nýrra íbúða og atvinnuhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu og víðar stendur auður og óseldur. Þá er búið að leggja drög að nýjum hverfum svo sem í Garðabæ og Mosfellsbæ en byggingu húsa á sömu slóðum hefur verið frestað.

Götur hafa því verið lagðar en húsin eru óbyggð.

Viðmælendur Viðskiptablaðsins eru á því að framboðið af nýju húsnæði undanfarin ár hafi verið langt umfram eftirspurn, einkum á suðvesturhorni landsins. Ari Skúlason, hagfræðingur hjá Landsbankanum, segir að miðað sé við að byggja þurfi í kringum 1.500 íbúðir á ári á höfuðborgarsvæðinu til að mæta venjulegri eftirspurn, m.a. vegna fólksfjölgunar. Fjölgun nýrra íbúða á ári hverju hafi hins vegar verið komin upp í þrjú til fjögur þúsund þegar mest lét síðustu árin.

Viðmælendur blaðsins segja að niðursveifla hefði því orðið hjá byggingarmarkaðnum fyrr en síðar - óháð bankakreppunni - þótt enginn vafi leiki á því að kreppan hafi dýpkað hana mjög.

Fjöldi byggingarfyrirtækja hefur farið í þrot á undanförnum mánuðum og margir hafa misst vinnuna. Sum fyrirtæki í þessum geira sem Viðskiptablaðið ræddi við hafa þurft að segja upp allt að níutíu prósent starfsmanna sinna.

Nánar í Viðskiptablaðinu sem kemur út í kvöld.