Vandræðin á Wall Street teygja sig alla leið inn í höfuðstöðvar Evrópusambandsins.

Á þessum orðum hefst fréttaskýring á vef AP fréttastofunnar. Þar er bent á að Evrópusambandinu hafi ekki tekist að ná samstöðu um aðgerðir til að takast á við kreppuna sem nú ríður yfir, heldur standi aðildarríki á sínum eigin fótum við að halda bönkum á floti.

Fjárfestar vilji vita hvers vegna málum er háttað svona og spyrja sig hvort Evrópusambandið geti þjónað sínum upphaflega tilgangi, að vera efnahagsbandalag. Vegna þessa aðgerðarleysis hafi öflug hagkerfi, á borð við Bretland og Þýskaland, kynnt til sögunnar björgunarpakka fyrir sína banka en skilið minni þjóðir, á borð við Ísland, eftir.

Í umfjöllun AP segir að þetta geti verið áhættusamt fyrir Evrópusambandið. Til skamms tíma gætu áhrifin orðið að bankar í fátækari löndum gætu farið í þrot. Auk þess gæti áratuga vinna sambandsins við að byggja upp traust og samstöðu þjóða farið fyrir lítið þegar komið er að tómum kofanum í Brussel þegar aðildarríkin leita þar aðstoðar á erfiðum tímum.

Þetta bætist ofan á það að ekki tókst að ná samstöðu um nýja stjórnarskrá Evrópusambandsins, sem ætlað var að gera ákvarðanatöku þjálli og straumlínulagaðri og styrkja stöðu Evrópusambandsins á alþjóðavettvangi.

Fjármálaráðherrar Evrópusambandsins héldu neyðarfund á þriðjudag í Lúxemborg. Þar var ákveðið að tryggja allar innistæður í bönkum innan Evrópusambandsins upp að 50.000 evrum. Það er aðeins helmingurinn af þeirri upphæð sem Frakkar vildu tryggja, auk þess sem stjórnvöld í Þýskalandi, Danmörku og á Íslandi hafa sagst tryggja allar innistæður einstaklinga í sínum bönkum. Írland hefur gengið enn lengra og sagst ábyrgjast greiðslu allra skulda írskra banka.

Í umfjöllun AP er haft eftir Willem Vermeend, fyrrverandi fjármálaráðherra Hollands, að það sé sárt að horfa upp á hversuskipt Evrópa sé núna. Hins vegar sé sjónarmið aðildarríkjanna mjög skiljanlegt, þau vilji bara gera það sem þau þurfa að gera til að tryggja að fjármálakerfið sitt starfi áfram. Ef aðgerðirnar komi ekki frá Evrópusambandinu verði þau bara að sjá um þær sjálf.