Landsframleiðsla dróst saman um 0,4% á öðrum ársfjórðungi á Spáni. Þetta bætist við 0,3% samdrátt á fyrstu þremur mánuðum ársins. IFS Greining bendir á það í Morgunpósti sínum í dag að efnahagur landsinns hafi staðið sig verr en áður var talið og því muni landsmenn eiga erfiðara með að koma sér úr þeirri efnahagslægð sem landið er í. Ef litið er á breytinguna á milli ára þá hefur landsframleiðsla á Spáni dregist saman um 1,3% á síðastliðnum tólf mánuðum. Þetta er meiri samdráttur en búist var við en spár gerðu ráð fyrir 1,0% samdrætti. Hagtölur sem birtar voru í gær sýna jafnframt, að efnahagur landsins hefur verið verri síðastliðin tvö ár en áður var talið.

Erlendir fjölmiðlar, þar á meðal Reuters-fréttastofan og breska viðskiptablaðið Financial Times, segja kreppuna á Spáni djúpa og megi reikna með samdrætti í efnahagslífi landsins næstu tvö árin eða á meðan stjórnvöld vinda ofan af fjárlagahallanum.