Nýja Sjáland hefur nú horfið inn í efnahagslægð í fyrsta sinn í tíu ár. Nýjar tölur frá hagstofu Nýja Sjálands sýna að samdráttur hafi ekki verið jafn mikill síðan árið 1998.

Fréttavefur breska ríkisútvarpsins, BBC; greinir frá því að innlend framleiðsla hafi dregist saman um 0,3 af hundraði á fyrsta ársfjórðungi ársins og um 0,2 af hundraði á öðrum ársfjórðungi. Vöxtur á ársgrundvelli hafi þó reynst jákvæður fram að júnímánuði.

Í hagfræðilegum skilningi telst það efnahagslægð þegar samdráttur eða hnignun hefur orðið á hagkerfi tvo ársfjórðunga í röð.

Nýsjálendingar hafa ekki farið varhluta af lánsfjárkreppunni sem einkennt hefur hagkerfi heimsins að undanförnu. Þess auki er hækkandi matvæla- og eldsneytisverð ekki til þess fallið að bæta stöðuna. Uppskerubrestur í varð einnig í landbúnaði, sem er gríðarmikill á Nýja Sjálandi, og hefur það leitt til minnkandi framleiðslu.

Þrátt fyrir neikvæðar fréttir var samdráttur annars ársfjórðungs minni en hagspekingar spáðu fyrir um.

BBC hefur það eftir fjármálaráðherra Nýja Sjálands, Michael Cullen, að vænta megi hagvaxtar í lok árs og að núverandi ástand fari batnandi.