Degi áður en Wow air var lýst gjaldþrota kynnti greiningardeild Arion banka hagspá þar sem því var spáð að ef Wow félli myndi landsframleiðsla dragast saman um 1,9% á þessu ári. Jafnvel þótt Wow myndi lifa sína rekstrarerfiðleika af var ráðgert að landsframleiðsla myndi dragast saman um 0,8%. Starfsmenn greiningardeildarinnar voru ekki í öfundsverðri stöðu enda lá niðurstaða kjarasamninga ekki fyrir og verkfallahrina stóð yfir. Alls óvíst var hve langvinn kyrrsetning Boeing 737 Max flugvélar Icelandair Group yrði og í hve miklum mæli hægt væri að bregðast við með auknu flugframboði eftir öðrum leiðum.

Til viðbótar við erfiða stöðu í ferðaþjónustunni lá fyrir að enginn loðnukvóti yrði gefinn út á þessu ári. Nú er hins vegar útlit fyrir að hagkerfið standi styrkari fótum en margir þorðu að vona.

Hagstofu Íslands áætlar nú að 2,7% hagvöxtur hafi verið á öðrum ársfjórðungi, sem nær yfir fyrstu þrjá mánuðina frá falli Wow air, og 0,9% hagvöxtur á fyrri helmingi ársins. Áður en þessar tölur lágu fyrir hafði Arion banki hækkað hagspá sína í 0,9% samdrátt á árinu. Þá hækkaði Seðlabankinn einnig hagspá sína í síðustu viku úr 0,4% samdrætti í 0,2% samdrátt. Spá Seðlabankans byggði á að 1% samdráttur landsframleiðslu yrði á öðrum ársfjórðungi en nú áætlar Hagstofan 2,7% vöxt, sem kann að gefa vísbendingar um að hagspá Seðlabankans hefði verið hækkuð frekar hefðu þær tölur legið fyrir.

Líkur á hagvexti í ár

„Miðað við hagvaxtartölur á fyrri helmingi ársins þá bendir allt til þess aðlögunin verði mjúk og það má jafnvel velta fyrir sér hvort það verði samdráttur á árinu. Að minnsta kosti þarf þá verulegan viðsnúning á seinni helmingi ársins svo að það raungerist,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins.

Erna Björg Sverrisdóttir, sérfræðingur hjá greiningardeild Arion banka, segir hagtölurnar sýna að hagkerfið sé að kólna. „Þrátt fyrir að það sé hagvöxtur sýna undirliggjandi stærðir að það er að hægja á. Við sjáum samdrátt í útflutningi, hægari einkaneysluvöxt og verulegan samdrátt í fjárfestingu, sér í lagi fjárfestingu atvinnuveganna. Eina ástæðan fyrir því að við sjáum hagvöxt er hvað innflutningur er að dragast ofboðslega mikið saman.“

Innflutningur dróst saman um 10,4% á fyrri helmingi ársins en útflutningur um 2,8%. Viðskiptaafgangur er því að að aukast sem skilar sér í hærri landsframleiðslu.

Minni innflutningur stærsta breytan Erna segir að það geti skipt talsverðu máli upp á hagvaxtarhorfur á árinu hvað skýri þennan mikla samdrátt innflutnings, sem sé einna helst í innfluttri þjónustu. „Wow air var með flestar vélarnar sínar á rekstrarleigu sem féllu undir innflutta þjónustu. Ef samdrátturinn skýrist helst af brotthvarfi Wow air þá má gera ráð fyrir að sjáum verulegan innflutningssamdrátt út árið. Þá má búast við að hagvöxtur verði við núllið og þess vegna einhver vöxtur á árinu út frá þessum einu áhrifum.“ Í máli Þórarins G. Péturssonar, aðalhagfræðings Seðlabankans, á kynningarfundi vegna stýrivaxtaákvörðunar í síðustu viku, mátti skilja sem svo að samdráttur innflutnings á þjónustu skýrðist fremur af greiðslum milli landa tengdum lyfjageiranum en vegna flugfélaga.

N ánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .