Í Kreppuspilinu eiga leikmenn að keppast við að komast á blaðamannafund til að segja af sér. Aðaltilgangur spilsins er þó að hafa gaman og skemmta sér, segir Valur Thor Gunnarsson, höfundur spilsins.

Það kom á markað fyrir um það bil viku og hefur salan, segir hann, gengið ágætlega.

Hugmyndin að spilinu kviknaði fyrir ekki alls löngu. Valur Thor er einn af þeim fjölmörgu sem hefur misst vinnuna í kjölfar bankakreppunnar. Hann dó þó ekki ráðalaus heldur ákvað að búa til eitthvað jákvætt og skemmtilegt en um leið eitthvað sem deildi á þær aðstæður sem við búum við um þessar mundir. Niðurstaðan var: Kreppuspil.

Valur Thor fékk til liðs við sig Jónas Björgvin Antonsson, framkvæmdastjóra hjá sprotafyrirtækinu Gogogic, en sá kom meðal annars að grafískri útfærslu spilsins.

Húmorinn að vopni

Í spilinu lenda leikmenn í ákveðnum aðstæðum, þeir eru í kreppu, góðæri eða á óvissutímum. „Þú dregur spjald eftir því á hvaða reit þú lendir og þarft að taka afleiðingum þess. Til dæmis getur þú farið á mótmælafund og unnið þér inn mótmælaspjald."

Þá er í spilinu hægt að komast yfir einkaþotur og kauprétti. Valur Thor segir að við vinnslu spilsins hafi verið opnuð eins konar hugmyndagátt þar sem allir gátu komið með tillögur að spjöldum í spilinu.

„Við fengum fleiri hundruð tillögur," segir hann. „Við vorum sjálfir búnir að gera hundrað spjöld." Niðurstaðan var sú að í spilinu eru 150 spjöld.

Hann segir að spilinu hafi verið vel tekið. Um fimm hundruð spil hafi verið seld í forsölu og þau hafi selst upp. Spilinu sé dreift í búðir á borð við Dogma, Iðu, Herðubreið og Office 1.

„Þetta er kærkomin pása frá krepputalinu - án þess þó að vera í einhverjum Pollýönnu-leik. Við notum húmorinn sem vopn til að horfast í augu við aðstæðurnar."