Meðalfjárhæð greiddrar leigu á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 6% á föstu verðlagi milli ára í maí. Í nágrenni höfuðborgarsvæðisins lækkaði leiga um 11,5% milli ára en 4,5% á landsbyggðinni. María Björk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Almenna leigufélagsins, segist hafa tekið eftir svæðisbundinni lækkun en heilt yfir sýni núverandi ástand hve „kreppuþolinn“ þessi rekstur sé.

„Enn sem komið er finnst mér áhrifin ekki hafa komið fram, en eins og svo margir þá bíðum við hvað haustið hefur í för með sér. Mikið af Airbnb húsnæðinu sem er að losna er að fara í sölu, fremur en til leigu, en þær íbúðir sem fara í leigu eru yfirleitt að fara í skammtímaleigu en ekki langtímaleigu. Okkar áhersla er hins vegar á langtímasamninga sem ná allt upp í sjö ár,“ segir María en um fjórðungur viðskiptavina þeirra hefur nýtt sér langtímasamninga þeirra.

Hún bendir á að leigusamningar félagsins eru bundnir. Því mun félagið ekki finna fyrir miklum áhrifum af tímabundinni lækkun leiguverðs, allavega ekki skyndilega. María hræðist ekki áframhaldandi lækkun leiguverðs og tekur fram rétt eins og Arnar Gauti Reynisson, framkvæmdastjóri Heimavalla, að fylgni fasteignaverðs og leiguverðs sé sterkt.

„Við höfum samt sem áður tekið eftir svæðisbundinni lækkun. Meðal annars í miðbænum en líka á Suðurnesinu, þar sem atvinnuleysið er hvað mest. Við höfum séð mjög óverulega aukningu í vanskilum og nýtingin haldist mjög góð,“ segir María og bætir við að Alma hafi boðið öllum viðskiptavinum sínum upp á greiðsludreifingu sökum faraldursins. Um 1% af árstekjum félagsins var dreift sem markar hversu vel leigurekstur þolir áföll.

Snorri Jakobsson, stofnandi Jakobsson Capital, tekur undir að lækkun leiguverðs muni taka langan tíma að hafa áhrif á rekstur leigufélaganna. Hann telur að litlar sviptingar verði í leiguverði en nefnir þó að tekjuvöxtur leigufélaganna komi án efa með að dragast saman, samhliða aukinni vannýtingu og minni eftirspurn. Sú hækkun sem hefur orðið á fasteignaverði telur hann stafa af lækkun vaxta.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .