Efnahagslíf Spánar mun dragast saman um 1,6% á þessu ári og 0,8% á því næsta, samkvæmt hagspá Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) sem birt var í dag. Þetta eru svartsýnni horfur en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gerir ráð fyrir.

Bloomberg-fréttaveitan bendir á það í umfjöllun sinni um spánna að Mariano Rajoy, forsætisráðherra landsins, hafi lýst því yfir í mars að ríkisstjórnin nái ekki markmiðum sínum í niðurskurði á ríkisútgjöldum á þessu ári. Álag á skuldir landsins hefur rokið upp síðustu dægrin aðgengi að erlendu lánsfé því orðið bæði dýrara og erfiðara en áður.

OECD dregur upp fremur dökka mynd af spænsku efnahagslífi. Stofnunin telur líkur á að einkaneysla muni dragast saman um 1,8% á næsta ári og ríkisútgjöld um 4,5%. Á sama tíma er fjórði hver Spánverji án atvinnu. Gert er ráð fyrir að atvinnuleysi aukist frekar á þessu ári og fari í 25,3%.