Kringlukráin fagnar í dag 25 ára afmæli en því fagna eigendur hennar samtíða afmæli afnámi bjórbannsins. „Þar sem við erum að fagna 25 ára afmæli á afmæli bjórsins þá ætlum við að hafa bjórinn á 25 ára gömlu verði,“ segir Kristín María Sigþórsdóttir sem kemur að rekstri hennar í dag ásamt bróður sínum Sophusi Sigþórssyni. Margt annað verður gert í tilefni dagsins að hennar sögn. „Vinsælustu réttirnir okkar verða á 25% afslætti og frítt verður á afmælisdansleik í kvöld með Deilarbungubræðrum. Síðan verðum við dugleg í því að halda upp á afmælið út allt árið með ýmsum tilboðum.“

Kringlukráin er fjölskyldufyrirtæki en þau Kristín og Sophus eru börn Sigþórs Sigurjónssonar sem stofnaði krána. Að sögn Kristínar byggir Kringlukráin á gamalli hefð en helsta áherslan í dag er lögð fjölbreyttan matseðil og góða þjónustu. „Staðurinn er mjög vinsæll í hádeginu og er algengur viðkomustaður fyrir fólk áður en það fer í leikhús. Við höfum alltaf verið með lifandi tónlist um helgar og fólk er duglegt að nýta dansgólfið og vonandi verður engin breyting þar á.“