*

miðvikudagur, 3. júní 2020
Erlent 5. nóvember 2019 07:01

Krispy Kreme í hart við háskólanema

Bandarískur háskólanemi fékk litlar þakkir frá Krispy Kreme fyrir að aka nærri 900 kílómetra til að selja kleinuhringi fyrirtækisins.

Ritstjórn

Jayson Gonzalez, 21 árs gamall viðskiptafræðinemi frá Champlin í Minnesota komst í hann krappann eftir að hafa gerst svo frakkur að selja Krispy Kreme kleinuhringi í óþökk kleinuhringjarisans.

Gonzalez tók upp á því að aka 430 kílómetra hverja helgi í Krispy Kreme verslun í Clive í Iowa og kaupa 100 kassa af kleinuhringjum, með 12 kleinuhringjum í hverjum kassa. Hann keyrði svo aftur til Minnisota og seldi þá til viðskiptavina á Minneapolis-St. Paul svæðinu. Enginn Krispy Kreme verslun er í Minnesota og hefur ekki verið síðustu 11 árin.

Gonzalez greiddi fullt verð fyrir kleinuhringina og rukkaði viðskiptavini sína á milli 17 og 20 dollara fyrir tylftina.

Eftir að námsmaðurinn ungi greindi frá þessu í blaðaviðtali fékk hann óvænt símtal frá skrifstofu Krispy Kreme í Nebraska þar sem hann var beðinn um að hætta að selja kleinuhringina. Salan gæti bakað Krispy Kreme tjón. Hann sagði aðdáendum sínum á samfélagsmiðlum að hann þyrfti að hætta sölunni.

Markaðsdeild fyrirtækisins virðist í kjölfarið hafa komist í málið. Gonzalez sagði frá því á Facebook síðu, sinni eftir að málið komst í heimsfréttirnir, að Krispy Kreme vilji nú hefja samstarf með Gonzalez og hann muni greina nánar hvað í því fellst á næstunni. 

Stikkorð: Kreme Krispy