Kristbjörg Stephensen mun ekki víkja sæti úr endurupptökunefnd vegna vanhæfis í máli Ólafs Ólafssonar. Þetta er niðurstaða nefndarinnar sem tók málið fyrir á fundi fyrir skömmu.

Ólafur fór fram á endurupptöku Al Thani-málsins í vor þar sem hann telur að sönnunargögn hafi verið rangt metin í dómi Hæstaréttar. Hann hafði lagt fram kröfu um að Kristbjörg viki sæti úr endurupptökunefnd vegna tengsla við Markús Sigurbjörnsson, einn dómenda í Hæstarétti, en hún er vinkona Bjargar Thorarensen, eiginkonu hans.

Nú þegar komið er á hreint að Kristbjörg mun ekki víkja sæti er ljóst að í máli Ólafs verður nefndin skipuð henni ásamt Elínu Blöndal, lögfræðingi hjá Háskóla Íslands, og Berglindi Svavarsdóttur hæstaréttarlögmanni.

Kristbjörg vildi ekki ræða við blaðamann í vikunni þar sem hún var stödd erlendis í fríi.