*

mánudagur, 16. maí 2022
Innlent 15. júní 2021 15:18

Kristín aðvöruð vegna duldra auglýsinga

Neytendastofa hefur metið það sem svo að áhrifavaldurinn Kristín Pétursdóttir hafi gerst sek um duldar auglýsingar á samfélagsmiðlum.

Snær Snæbjörnsson
Kristín Pétursdóttir, áhrifavaldur og leikkona.
Aðsend mynd

Neytendastofa hefur metið það sem svo að áhrifavaldurinn Kristín Pétursdóttir hafi gerst brotleg við lög um viðskiptahætti og markaðssetningu með duldum auglýsingum á samfélagsmiðlum. Þetta kemur fram í ákvörðun Neytendastofu.

Í ákvörðuninni segir að Kristín hafi ekki nægilega vel merkt að umfjallanir á Instagramsíðu sinni væru auglýsingar. Þá er einnig sagt að hún hafi með villandi viðskiptaháttum brotið gegn lögum nr. 57/2005 um viðskiptahætti og markaðssetningu. Þá hefur henni verið bannað að birta auglýsingar með framangreindum hætti að öðrum kosti gæti stofnunin þurft að grípa til sekta.

Neytendastofa hafði fengið ábendingar um að Kristín hefði fjallað um ýmsa þjónustu og vörur gegn endurgjaldi án þess að hafa sérstaklega merkt umfjallanirnar sem auglýsingar. Þá hafi Neytendastofa bent henni á að „endurgjald"  væri allur sá ávinningur sem hún hefði hlotið með umfjöllun sinni, svo sem afsláttarkjör, vörur, þjónusta, inneignir og vöruafnot.

„Með vísan til alls ofangreinds er það mat Neytendastofu að umfjallanir Kristín Pétursdóttur um vörur Gallerí 17/NTC, Húrra Reykjavík, Nola, Yuzu Burger, Blómahönnun, Reykjavík Meat og Petit hafi verið í viðskiptalegum tilgangi og endurgjald komið fyrir. Því var um auglýsingar í skilningi laga nr. 57/2005 að ræða.

Neytendastofu telur að ekki komi fram með fullnægjandi hætti að um markaðssetningu hafi verið að ræða eða að greiðsla eða annað endurgjald hafi komið fyrir í umræddum umfjöllunum og því um að ræða brot gegn 1. mgr. 6. gr. laga nr. 57/2005. Að ofangreindu virtu telur Neytendastofa að Kristín Pétursdóttir hafi með villandi viðskiptaháttum brotið gegn 2. mgr. 9. gr., sbr. 5. og 8. gr. laga nr. 57/2005," segir í ákvörðuninni.