Kristín Þorsteinsdóttir hefur verið ráðin útgefandi fjölmiðlafyrirtækisins 365. Útgefandi er yfirmaður fréttastofu og ber ábyrgð á störfum hennar gagnvart forstjóra, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá 365. Áður sinnti forstjóri fyrirtækisins hlutverki útgefanda. Aðalritstjóri 365 mun áfram stýra daglegum rekstri fréttastofu og er ekki um breytingu á störfum hans að ræða.

Breytingin er liður í að auka sjálfstæði fréttastofu frá öðrum rekstri fyrirtækisins.

Í tilkynningunni kemur fram að Kristín hafi víðtæka reynslu af fjölmiðlum en hún vann lengst af hjá Ríkisútvarpinu. Síðastliðin tvö ár hefur hún setið í stjórn 365 en lætur nú af stjórnarstörfum. Kristín er cand mag. í Íslensku, MA í blaðamennsku frá City University í London og MBA frá HÍ. Auk fjölmiðlastarfa hefur hún starfað á samskiptasviði Baugs, í upplýsingamálum hjá Iceland Express og sinnt ýmsum ráðgjafarstörfum.