Kristín S. Hjálmtýsdóttir var ráðin í stöðu framkvæmdastjóra Rauða krossins í gær. Frá árinu 1995 hefur Kristín starfað sem framkvæmdastjóri millilandaviðskiptaráða sem hafa aðsetur hjá Viðskiptaráði Íslands í Húsi atvinnulífsins.

Kristín hefur störf á nýju ári, og segist spennt fyrir starfinu:

„Það er spennandi að halda áfram því mikla uppbyggingastarfi sem hefur átt sér stað innan Rauða krossins um allt land síðustu ár, en sjálfboðaliðar og starfsfólk hreyfingarinnar vinna óeigingjarnt starf á afar fjölbreyttum vettvangi.“

Kristín hefur tekið þátt í starfi Rauða krossins sem sjálfboðaliði í Konukoti og er núverandi formaður Reykjavíkurdeildar. Kristín hefur verið virk í félagsstarfi og ýmsu starfi tengdu íslensku atvinnulífi og sat m.a. í 6 ár í háskólaráði Háskólans í Reykjavík.

Hún er með meistaragráðu í þjóðhagfræði frá Albert-Ludwig háskólanum í Freiburg, er gift og á fjögur börn.