Kristín Guðmundsdóttir hefur verið ráðin forstjóri Skipta hf. Hún hefur starfað sem fjármálastjóri félagsins undanfarin átta ár og jafnframt verið staðgengill forstjóra á þeim tíma.

Í tilkynningu frá Skiptum segir að Kristín muni taka við starfinu frá og með deginum í dag. „Kristín mun starfa náið með stjórn félagsins og eigendum að því að móta framtíðarstefnu fyrir Skipti en miklar breytingar hafa orðið í rekstrarumhverfi félagsins undanfarin misseri líkt og annarra íslenskra fyrirtækja.

Kristín er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og starfaði áður hjá Íslandsbanka og sem fjármálastjóri Granda hf. Hún hefur starfað sem fjármálastjóri hjá Símanum og Skiptum frá 2003.

Þá hefur Óskar Hauksson verið ráðinn fjármálastjóri Skipta frá sama tíma. Óskar er með BS í Fjármálum og reikningshaldi frá Háskóla Íslands. Hann starfaði áður hjá SPRON og Landsbanka Íslands auk Bear Sterns í Bandaríkjunum. Hann hefur starfað hjá Skiptum frá 2005 og verið forstöðumaður Fjárstýringar frá 2009.“

Rannveig Rist, stjórnarformaður Skipta segir í tilkynningu að það sé mikið ánægjuefni að Kristín Guðmundsdóttir taki við starfi forstjóra Skipta. „Hún hefur viðamikla reynslu og gjörþekkir rekstur félagsins og dótturfélaga. Hún mun gegna mikilvægu hlutverki í þeirri vinnu sem framundan er við að ákvarða framtíðarstefnu fyrir Skipti við breyttar aðstæður.“