Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, tilkynnti starfsfólki á opnum fundi í dag að hún muni ekki sækjast eftir endurkjöri til rektors skólans þegar kjörtímabili hennar lýkur 1. júlí á næsta ári.

Kristín hefur gegnt embætti rektors frá árinu 2005 og sagði hún meðal annars að það hefðu verið mikil forréttindi að gegna starfinu og fá að fylgjast með metnaði, vinnuhörku, sókn og árangri starfsfólks í kennslu og vísindum við erfiðar aðstæður. Hún sagðist jafnframt vona að þetta væri í síðasta sinn sem niðurskurður og hagræðingarkrafa gagnvart Háskóla Íslands einkenndu fjárlagafrumvarpið og hún myndi kappkosta í vetur að treysta fjármögnun skólans.