Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, hefur verið skipuð í háskólaráð Háskólans í Lúxemborg af þarlendum stjórnvöldum til næstu fimm ára. Forseti háskólaráðsins er Marc Jaeger, forseti Evrópudómstólsins, en samtals skipa sjö einstaklingar ráðið. Í tilkynningu frá HÍ segir að meginverkefni ráðsins sé stefnumótun og ábyrgð á fjármálum og rekstri háskólans.

Háskólinn í Lúxemborg var stofnaður árið 2003 og fagnaði 10 ára afmæli síðastliðið haust. Hann er eini háskólinn í hertogadæminu en þar búa samtals um 540 þúsund manns. Háskólinn er í dag staðsettur á þremur stöðum í miðbæ Lúxemborgar en ný háskólalóð er í uppbyggingu í bænum Belval sem er í 18 km fjarlægð. Nú þegar er starfsemi á sviði lífvísinda flutt til Belval og ráðgert að flutningar annarra eininga hefjist 2015.

Háskólanum í Lúxemborg er skipað í þrjú fræðasvið; Hug- og menntavísindasvið; Raunvísinda- og tæknisvið og Lögfræði-, hagfræði- og fjármálasvið. Enn fremur eru starfandi tvö stór þverfræðileg rannsóknasetur við skólann. Annað setrið er á sviði öryggismála og upplýsingatækni en þar starfa 200 manns að meðtöldum 40 doktorsnemum. Unnið er að þróun öruggra upplýsingatæknikerfa sem geta staðist netárás og tryggt verndun trúnaðarupplýsinga. Samvinna er milli verkfræði- og tæknigreina annars vegar og viðskiptafræði, félagsfræði og lögfræði hins vegar. Setrið starfar í víðtæku samstarfi við atvinnulíf og gerðir hafa verið langtímasamningar við 20 fyrirtæki um fræðilega samvinnu og fjárhagsstuðning.