„Við stelpurnar tökum okkur stundum til og bökum vöfflur. En við gerum það alltaf á Bóndadaginn,“ segir Kristín Jóhannsdóttir, upplýsingafulltrúi Kauphallarinnar, sem bakaði vöfflur með samstarfskonum sínum  í tilefni dagsins með sídegiskaffinu. Hún segir þetta hafa verið hefð sem var við lýði í Kauphöllinni þegar hún hóf þar störf fyrir að verða átta árum. Vöfflurnar voru ekki aðeins fyrir karlpeninginn í Kauphöllinni heldur bæði kynin. Sjö starfsmönnum Verðbréfaskráningar var sömuleiðis boðið til veislunnar og þurfti því að metta um 24 þar innandyra..

Kristín segir þetta hefðbundnar vöfflur með sultu og rjóma og sé stemningin bæði heimilisleg og skemmtileg.

„Við gerum ráð fyrir því að allir borði vel, þetta er svo gott og þess vegna pössum við upp á að gera nóg af vöfflum,“ segir Kristín.

Myndin af Kristínu við vöfflujárnið var birt á Facebook-síðu Kauphallarinnar. Þar er jafnframt hægt að skoða fleiri myndir frá vöfflukaffinu.