Þegar umræðunni er vikið að bankahruninu og skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis nefnir Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, að fyrra bragði að nauðsynlegt sé að huga að sjálfstæði skólans varðandi fjármögnun.

Í Viðskiptablaðinu er að finna ítarlegt viðtal við Kristínu þar sem hún fjallar um stöðu skólans eftir bankahrun, samskiptin við atvinnulífið, stefnu skólans að komast í hóp 100 bestu háskóla heims og þátttöku háskólamanna í þjóðfélagsumræðunni svo eitthvað sé nefnt.

Eins og fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndar fékk skólinn um 125 milljónir króna á fimm ára tímabili frá fjármálafyrirtækjunum sem jafngildir rétt rúmlega 0,2% af heildartekjum skólans. Á fimm ára tímabili fékk skólinn um 25 milljónir króna árlega á meðan tekjur skólans voru um 14 milljarðar.

Kristín segir að í því samhengi séu þetta ekki háar upphæðir og því sé nauðsynlegt að fara ekki úr einum öfgunum í aðrar þegar rætt er um þessi mál.

„Varðandi samskipti háskólans og atvinnulífsins þá er alveg ljóst að við þurfum á hvort öðru að halda. Við þurfum, og viljum, vera í góðum samskiptum við atvinnulífið,“ segir Kristín.

„Það er mjög erfitt að draga þessa línu fyrirfram en við þurfum vissulega að fara yfir þetta. Mín tilfinning er sú að við þurfum að skoða hvert einstakt tilvik sem kemur upp, hvort hætta sé á hagsmunaárekstrum og hvernig við getum sneitt hjá þeim því við viljum vera í góðum tengslum við atvinnulífið. Við gerðum það reyndar líka á þessum tíma. Þá vorum við með skýrar reglur um styrki sem voru veittir fyrir ákveðin störf eða stöður, t.d. varðandi ráðningar þar sem styrktaraðilinn kom ekki nálægt ferlinu svo dæmi sé tekið.“

En varla ætlið þið að taka fyrir allar styrkveitingar í framtíðinni?

„Nei, alls ekki. Við verðum að finna leið til þess að forðast hugsanlega hagsmunárekstra en á sama tíma að viðhalda góðum samskiptum við atvinnulífið,“ segir Kristín.

En varðandi tengslin við atvinnulífið. Hvernig sérðu þau fyrir þér í framtíðinni í kjölfar þess sem á undan er gengið?

„Við erum nú þegar með reglur sem fjalla um svona styrki svo litið sé til þeirra,“ segir Kristín.

„Það sem við þurfum að passa fyrst og fremst er að skólinn verði aldrei háður utanaðkomandi fjármagni. Við eigum marga velunnara háskólans, bæði einstaklinga og fyrirtæki, sem hafa verið að styrkja nemendur til náms, tækjakaup og fleira. Við þurfum einfaldar og um leið skýrar reglur um þetta.Við viljum samskipti við atvinnulífið og þurfum á því að halda. Rétt eins og atvinnulífið þarf líka á góðum samskiptum við háskólana að halda. En þetta þarf að vera samstarf sem gagnast báðum.“

Nánar er rætt við Kristínu í Viðskiptablaðinu.