Kristín Katrín Guðmundsdóttir hefur verið ráðin forstöðumaður söludeildar innflutnings hjá Eimskip. Kristín Katrín hefur starfað innan Icelandair samstæðunnar síðustu ár, síðast sem forstöðumaður sölu- og bókunarsviðs Icelandair Hotels. Þar á undan starfaði hún meðal annars í tekjustýringu hjá félaginu. Kristín Katrín mun hefja störf hjá Eimskip á næstu vikum, að því er kemur fram í fréttatilkynningu.

Kristín Katrín er með BS í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands. Kristín Katrín er gift Ingimar Erni Erlingssyni og eiga þau tvö börn.

„Við fögnum komu Kristínar Katrínar og bjóðum hana velkomna í sterka liðsheild Eimskips. Innflutningur til Íslands er einn af lykilþáttum í okkar samfélagi og hlutverk Kristínar Katrínar verður að leiða hóp reynslumikilla starfsmanna okkar í að bjóða áfram framúrskarandi þjónustu og öflugar flutningalausnir til okkar mikilvægu viðskiptavina. Við væntum mikils af henni og hlökkum til að fá hana í hópinn,“ er haft eftir Birni Einarssyni, framkvæmdarstjóra sölu- og viðskiptastýringar Eimskips.

Þá hefur Birgir Gunnarsson verið ráðinn í starf sérfræðings í útflutningsdeild félagsins. Birgir hefur síðustu ár starfað sem sérfræðingur í aðfangakerfi Elkem og áður í flutningageiranum.  Birgir er með B.Sc. í Sjávarútvegsfræði frá Háskólanum á Akureyri og diplómu í flutningafræði frá Háskólanum í Reykjavík. Birgir er giftur Ásthildi Björnsdóttur. Birgir hefur störf í byrjun nóvember.