Kristín Hrefna Halldórsdóttir hefur verið ráðin til Origo þess að leiða teymi gæðalausna hjá fyrirtækinu. Greint er frá ráðningu hennar í fréttatilkynningu.

Kristín Hrefna starfaði áður sem framkvæmdastjóri Flow - Meditation for modern life. Þá hefur hún einnig unnið við viðskiptagreiningar hjá Valitor, viðskiptastýringu hjá Meniga og sem framkvæmdastjóri borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins.

Hún lauk Master of Business Administration (MBA) frá Háskóla Íslands og BA gráðu í stjórnmálafræði frá sama háskóla.

„Það eru afar spennandi tækifæri í sölu og markaðssetningu á stafrænum gæðalausnum. Origo hefur um árabil þróað CCQ, sem er heildstæð gæðastjórnunarlausn og heldur utan um stjórnkerfi skv. ISO stöðlum, persónuverndarlögum (GDPR) og kröfum annarra staðla og reglna. Það sem er sérstaklega spennandi við CCQ er að í einni lausn er hægt að rita, samþykkja og útgáfustýra skjölum, staðfesta lestur, skilgreina áhættur ferla, meðhöndla frábrigði eða ábendingar og framkvæma innri úttektir. Þá er á döfinni að gefa út fleiri gæðalausnir, sem koma enn betur til móts við áherslur og þarfir íslensks atvinnulífs,“ segir Kristín Hrefna í tilkynningunni.