*

fimmtudagur, 27. janúar 2022
Fólk 23. desember 2021 15:13

Kristín nýr innkaupastjóri Innness

Kristín Jakobsdóttir er nýr innkaupastjóri hjá Innnesi, en hún hefur starfað hjá fyrirtækinu frá árinu 2009.

Ritstjórn
Kristín Jakobsdóttir, nýr innkaupastjóri Innness.
Aðsend mynd

Kristín Jakobsdóttir tekur við sem innkaupastjóri hjá Innnesi ehf. sem er ein af stærstu matvælaheildsölum landsins. En Innnes tók nýverið 15 þúsund fermetra hátæknivöruhús í notkun, sem er að stórum hluta "róbótavætt" og það eina sinnar tegundar hér á landi. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Kristín hefur starfað hjá Innnes frá árinu 2009 sem birgða-, tolla-, og innkaupafulltrúi við fjölbreytt verkefni. Samhliða vinnu leggur Kristín stund á viðskiptafræði með áherslu á viðskiptagreind frá Háskólanum á Bifröst þar sem hún stefnir á útskrift haustið 2022.

Kristín Jakobsdóttir nýr innkaupastjóri Innness:

„Ég hlakka mikið til að takast á við ný og spennandi verkefni hjá Innnes. Ég bý að þeirri reynslu að hafa verið hluti af Innnes síðustu 12 ár og mun nýta þá þekkingu og reynslu í áframhaldandi störfum í þágu fyrirtækisins"

Magnús Óli Ólafsson, forstjóri Innness:

"Kristín hefur starfað hjá Innnes í rúman áratug og hefur víðtæka þekkingu á birgðamálum og innkaupum. Hennar styrkleikar liggja í ferlum, greiningu gagna og vöruþekkingu auk þess sem hún þekkir rekstur félagsins mjög vel. Það lá því beinast við að hún tæki við starfi innkaupastjóra. Okkur þykir einstaklega ánægjulegt að geta boðið starfsmönnum að vaxa í starfi innan fyrirtækisins og hlökkum til að halda áfram að starfa með Kristínu".