Kristín Inga Jónsdóttir hefur tekið við starfi forstöðumanns markaðsdeildar Póstsins. Kristín hefur starfað hjá Póstinum frá árinu 2019 sem markaðssérfræðingur. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Póstinum.

Kristín er með víðtæka reynslu af markaðsmálum en ásamt því að hafa starfað hjá Póstinum var hún áður verkefnisstjóri markaðsdeildar hjá Wow air sem og sérfræðingur í stafrænni markaðssetningu hjá Kynnisferðum. Kristín hefur verið lykilmanneskja í markaðsstarfi Póstsins undanfarin tvö ár og hefur komið að öllum helstu herferðum Póstsins, þá hefur hún í öllum fyrri störfum haft mikla aðkomu að markaðsherferðum sem og efnissköpun. Kristín er með MS próf í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum frá Háskóla Íslands ásamt BA prófi í félagsráðgjöf.

„Ég er virkilega ánægð með að fá þetta tækifæri. Við höfum verið að gera mjög skemmtilega hluti hjá Póstinum upp á síðkastið, komin vel af stað í stafrænni umbreytingu en eigum líka helling inni og ætlum okkur svo sannarlega áfram og upp! Við munum halda áfram samtalinu við markaðinn og leggja áherslu á lausnamiðað og virðisaukandi kynningarefni en markmið okkar er alltaf að bæta þjónustu til viðskiptavina og ganga í takt við þeirra óskir. Það er margt spennandi framundan hjá okkur og ýmis úrbótaverkefni í gangi til að bæta þjónustuna og upplifun viðskiptavina sem verður gaman að kynna til leiks þannig ég er mjög spennt fyrir komandi tímum," segir Kristín Inga í tilkynningunni.

„Kristín er framúrskarandi markaðsmanneskja og hefur gert frábæra hluti hjá okkur í Póstinum. Hún hefur djúpa þekkingu á bæði fræðigreininni markaðsfræði og reynsluna af því hvað þarf til að keyra hratt og vel strategísk verkefni á hröðum markaði. Kristín spilar lykilhlutverk í þeim spennandi verkefnum sem eru framundan og það er mjög mjög ánægjulegt að geta kynnt hana til leiks í þessu nýja hlutverki.  Ég er fullviss um það að hún eigi eftir að vinna magnað starf," segir Ósk Heiða Sveinsdóttir, forstöðumaður þjónustu og markaða hjá Póstinum, í tilkynningunni.