*

laugardagur, 25. september 2021
Innlent 27. apríl 2021 11:33

Ragnheiður og Kristín í stjórn Eikar

Bjarni Kristján Þorvarðarson, sem sat í stjórn Eikar síðastliðin tvö ár, hlaut ekki kjör á aðalfundi félagsins í gær.

Ritstjórn
Ragnheiður Harðar Harðardóttir og Kristín Friðgeirsdóttir

Á aðalfundi Eikar í gær voru þær Kristín Friðgeirsdóttir og Ragnheiður Harðar Harðardóttir kjörnar í stjórn fasteignafélagsins. Ásamt þeim voru Eyjólfur Árni Rafnsson, Guðrún Bergsteinsdóttir og Hersir Sigurgeirsson kjörin til áframhaldandi stjórnarsetu. Eyjólfur verður áfram stjórnarformaður og Guðrún varaformaður stjórnar.

Bjarni Kristján Þorvarðarson, sem sat í stjórn Eikar síðastliðin tvö ár, hlaut því ekki kjör í gær. Anna Harðardóttir var einnig í stjórn fasteignafélagsins síðastliðið ár en hún gaf ekki kost á sér í ár. Már Wolfgang Mixa, lektor í fjármálum við Háskólann í Reykjavík, bauð sig einnig fram til stjórnar fasteignafélagsins.

Margfeldiskosningu var beitt við stjórnarkjörið eftir kröfu þess efnis frá fjárfestingafélaginu Brimgörðum sem er stærsti hluthafi Eikar með 14,6% hlut. 

Tilnefningarnefnd Eikar hafði lagt til að þeir fjórir stjórnarmenn sem buðu sig fram aftur yrðu kosnir á aðalfundinum. Auk þeirra lagði hún til að Kristín kæmi ný inn í stjórnina fyrir Örnu. 

Kristín Friðgeirsdóttir var einnig nýlega kjörin í stjórn sameinaðs félags Kviku banka og TM en hún hafði þar áður setið í stjórn TM frá árinu 2013. Hún var einnig stjórnarformaður Haga á árunum 2014-19. Kristín er alþjóðlegur stjórnendaráðgjafi með eigin rekstur á sviði stefnumótunar, ákvarðanatöku, áhættustýringar, gagnagreiningar og tekjustýringar. Kristín hefur kennt við London Business School síðan 2002 og gegnir stöðu Adjunct Professor. 

Ragnheiður Harðar Harðardóttir hefur starfað sem forstjóri Opinna Kerfa hf. frá árinu 2019 en var þar áður fjármálastjóri á árunum 2016-2019. Einnig hefur hún starfað sem fjármálastjóri Senu á tímabilinu 2014-2016, verkefnastjóri hjá KPMG árin 2008-2014 og verkefnastjóri hjá Deloitte árin 2001-2005.