Það er af illri nauðsyn sem bankarnir eru nú í eigu ríkisins en nauðsynlegt er að einkavæða þá sem fyrst aftur.

Þetta sagði Kristín Pétursdóttir, forstjóri Auður Capital á viðskiptaþingi Viðskiptaráðs sem nú stendur yfir.

Hún sagði að ekki gengi til lengdar að ríkið starfrækti þrjá banka sem allir ættu að vera í samkeppni við hvern annan og eins fjármálastofnanir í einkaeigu.

Þá sagði Kristín að með aðild að Evrópusambandinu og upptöku evru myndi fjármálakerfið hér á landi ná stöðugleika á ný, ekki gengi að hafa sveiflukenndan gjaldmiðil á borð við krónuna.