Kristín Pétursdóttir, forstjóri Auðar Capital hefur mikið tjáð sig um Evrópumál og lýst því yfir bæði í ræðu og riti að hún telji rétt að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu. Aðspurð hvort sú afstaða hennar hafi eitthvað breyst svarar Kristín því neitandi.

„Afstaða mín byggir fyrst og fremst á því að ég tel að það sé allt of dýrt fyrir okkur að hafa krónuna sem gjaldmiðil og nánast ómögulegt að halda uppi opnu hagkerfi með þessa örmynt,“ segir Kristín í ítarlegu viðtali við Viðskiptablaðið.

„Þetta getur ekki orðið öðruvísi en í formi mikilla hafta eða gríðarlegs viðskiptakostnaðar eins og við höfum orðið vör við í formi mikilla gengissveiflna og háum vaxtakostnaði. Það er ekkert annað en kostnaður fyrir fyrirtæki og heimili.“

Í viðtalinu fer Kristín fer m.a. annars yfir rekstur Auðar Capital, stefnu fagfjárfestasjóðsins AUÐAR I, stöðuna á fjármálamarkaði og í þjóðfélaginu almennt auk þess að fjalla um starfslok sín hjá Kaupþingi árið 2006.

Eftirfarandi kafli, þar sem Kristín er spurð um afstöðu sína til aðildar að ESB, rataði þó ekki í prentútgáfu Viðskiptablaðsins í gær en er hér birtur í heild sinni:

Þá segir Kristín að hún telji að til framtíðar litið verði mjög erfitt að reka nútímafyrirtæki á Íslandi í þessu umhverfi, þ.e. fyrirtæki sem ætli að starfa í alþjóðaheimi. En það sé þó myntmálið sem hafi helst gert það að verkum að hún hafi verið þessarar skoðunar.

„Ég tel samt líka að það sé gríðarlega mikilvægt að smáríki eins og Ísland tengist stærri einingu, stærra menningarsvæði, stærra landfræðisvæði og stærra viðskiptasvæði,“ segir Kristín.

„Það skiptir gríðarlega miklu máli upp á framtíðarmöguleika okkar. Þegar ég er að velta þessum aðildarmálum fyrir mér lít ég fyrst og fremst á hagsmuni heildarinnar og framtíðarmöguleika barna minna. Smæðin gerir okkur oft illa kleift að vinna faglega og því gæti falist ávinningur í því að geta sótt þekkingu og reynslu úr stærri hæfileikagrunni og fá þannig aukna fagmennsku inn í stjórnsýslu og eftirlitsstofnanir. Ég held að ef við ætlum að einangra okkur hérna, 300 þúsund manns einhvers staðar út á Atlantshafi, og gera allt eins og okkur sýnist, alltaf að finna upp hjólið sjálf og helst ekki tengjast neinum nema það sé bara okkar hagur og aldrei taka þátt í samstarfi með gagnkvæman ávinning að leiðarljósi – þá fá börnin okkar ekki sömu tækifæri hér og þau gera annars staðar í Evrópu.“

Það er svolítið sérstakt að velta fyrir sér að þeir sem eru jákvæðir í garð Evrópusambandsins eru oftar en ekki aðilar sem ekki hafa neinna sérhagsmuna að gæta, það sama verður ekki eins auðveldlega sagt um þá sem eru andvígir aðild.

Lítur þú þá þannig á að það sé einangrunarstefna að vilja ekki gerast aðili að ESB?

„Já, ég lít á það sem einangrunarstefnu. Ég tel að tækifærin fyrir okkar séu meiri innan ESB heldur en utan,“ segir Kristín.

„Í þessari umræðu allri er margt gagnrýnt við Evrópusambandið. Sumt af því á rétt á sér enda er Evrópusambandið ekki fullkomið frekar en önnur mannanna verk.“

Þá segir Kristín að henni finnist með ólíkindum ef farin yrði sú leið að draga aðildarumsóknina að ESB til baka og þjóðinni verði ekki treyst til að taka sjálf afstöðu í málinu.

„Við erum komin af stað í þetta samningaferli og þetta er eitthvað sem þjóðin er búin að bítast um í mörg ár,“ segir Kristín.

„Ég held að það væri farsælast að klára þennan samning, reyna að fá eins góðan samning og mögulegt er og skoða hann frá öllum hliðum, vega og meta kosti og galla og gera það á málefnalegan máta þannig að fólk geti haft málefnalegar rökræður um kosti og galla þess að ganga inn þegar samningurinn liggur fyrir. Menn eru núna að tala um hluti sem þeir vita í raun ekkert um. Ég skil ekki af hverju það eigi að taka þann rétt af þjóðinni. Menn eiga að klára samninginn og leyfa þjóðinni að velja.“