Auður Capital hefur verið áberandi allt frá stofnun vorið 2007. Þær Kristín Pétursdóttir forstjóri og Halla Tómasdóttir, starfandi stjórnarformaður, kynntu þá stefnu félagsins og lögðu áherslu á önnur gildi en tíðkuðust hjá öðrum fjármálafyrirtækjum.

Þá hefurfagfjárfestasjóður félagsins, AUÐUR I, verið áberandi undanfarið og látið mikið að sér kveða í kaupum á fyrirtækjum.

Margir hafa haft þá ímynd af Auði Capital að félagið hafi verið stofnað til að fjárfesta í atvinnuvegi kvenna og nær eingöngu í fyrirtækjum kvenna. Þannig hafi þær stöllur kynnt félagið í upphafi og sú staðreynd að mest áberandi stjórnendur Auðar séu konur hafi jafnvel ýtt undir „kvennavinkilinn“ ef svo má að orði komast.

Aðspurð um það segir Kristín að þarna sé á ferðinni skemmtilegur misskilningur og að félagið hafi aldrei átt að snúast bara um konur, heldur hafi vantað kvenlægari gildi og fleiri konur í fjármálageirann til að skapa þar betra jafnvægi.

„Þetta snýst ekki um konur, þetta snýst um öðruvísi viðhorf. Hugmyndin var að slá annan tón,“ segir Kristín í ítarlegu viðtali við Viðskiptablaðið.

„Eftir hrunið hafa fleiri áttað sig á því sem við vorum að tala um, hvaða máli það skiptir og af hverju það skiptir máli. Það hefur líka þýtt að það eru enn fleiri sem vilja koma og vera í viðskiptum við okkur. Þegar við ákváðum að stofna þetta fyrirtæki var margt sem okkur hugnaðist ekki í þessu umhverfi og við töldum að það væri pláss fyrir fyrirtæki sem hefði aðra hluti og önnur gildi að leiðarljósi.“

Nánar er rætt við Kristínu í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.Í viðtalinu fer Kristín fer m.a. annars yfir rekstur Auðar Capital, stefnu fagfjárfestasjóðsins AUÐAR I, stöðuna á fjármálamarkaði og í þjóðfélaginu almennt auk þess að fjalla um starfslok sín hjá Kaupþingi árið 2006.