Kristín Pétursdóttir, forstjóri Auðar Capital, segir af og frá að hún hafi hætt hjá Kaupþingi í árslok 2006 vegna ósættis, þvert á móti hafi hún skilið við fyrirtækið í mikilli vinsemd og bróðerni.

„Ég upplifði það ekki hjá Kaupþingi að framhjá mér væri gengið, komst þangað innan fyrirtækisins sem ég vildi fara og hætti sátt,” segir Kristín í viðtali við Viðskiptablaðið í dag.

Ítarlegri útgáfu viðtals þess sem birtist í Viðskiptablaðinu í dag er að finna hér á vefnum.

Kristín segir helstu ástæðu þess að hún ákvað að hætta hjá Kaupþingi hafi verið sú að með henni var tekin að gerjast ný viðskiptahugmynd, hugmynd sem síðar varð að veruleika með Auði Capital.

„Mig langaði að finna nýja áskorun og uppgötva hvað ég gæti gert fyrir utan Kaupþing, og fylgdi þeirri löngun alla leið,” segir Kristín.

Á sér ekki erlenda fyrirmynd

Athygli vekur að Auður Capital á sér ekki erlendar fyrirmyndir og kveðst Kristín sannfærð um að þjónusta sú sem Auður veitir, sem byggir m.a. á áherslu á samfélagslegum gildum og kvenlægri nálgun, geti átt sig mikinn hljómgrunn erlendis.

„Hillan sem Auður Capital hefur fundið sér er líka til í öllum nágrannalöndum.Við erum að feta okkur inn á ónumið land og það þarf talsvert aðrar aðferðir til að nema það en þekktar eru í fjármálageiranum í dag.”