Kristín Pétursdóttir hefur verið ráðin aðstoðarforstjóri Singer & Friedlander, eins stærsta dótturfélags Kaupþings banka hf. Í tilkynningu bankans til Kauphallarinnar kemur fram að Kristín hefur starfað hjá Kaupþingi banka frá árinu 1997 og var á árunum 1999-2005 framkvæmdastjóri Fjárstýringar bankans.

Í fréttinni kemur fram að ráðning Kristínar er liður í víðtækum skipulagsbreytingum innan Singer & Friedlander en breytingarnar miða einkum að því að einfalda og skerpa allt skipulag félagsins og færa það nær því sem tíðkast í öðrum starfsstöðvum Kaupþings banka. Í þessu felst meðal annars sameining stoðsviða og fækkun dótturfélaga innan Singer & Friedlander s samstæðunnar. Undanfarna mánuði hefur Kristín Pétursdóttir stýrt samþættingu Singer & Friedlander við Kaupþing banka og hefur sú vinna gengið samkvæmt áætlun segir í fréttinni.