„Þegar Katar kom upp þá var það ég sem þurfti að sannfæra alla í fjölskyldunni, ekki síst Óla. En það tók ekki langan tíma og hann keypti þetta mjög fljótt og var á því að þetta yrði algjört ævintýri.” segir Kristín Soffía Þorsteinsdóttir, eiginkona Ólafs Stefánssonar, handboltamanns.

„Ég hafði það allan tímann á tilfinningunni að það hefði verið fylgst með okkur þarna. Ég veit ekki nákvæmlega hverjir stóðu fyrir því en ég er sannfærð um þetta. Vegabréfin voru tekin af okkur nokkrum sinnum undir því yfirskini að verið væri að framlengja hin og þessi leyfi. Ég lenti líka í því að vera stödd á veitingastað þar sem öryggisvörður eða bara ókunnugur maður kom upp að mér og sagðist hafa séð mig einhvers staðar fyrir tveimur vikum og rifjaði það upp með mér. Þetta fannst mér ekki notalegt,“ segir Kristín Soffía og bætir því við að hún hefði heyrt af leikmönnum sem höfðu mótmælt einhverju í samningnum og þá var vegabréfið þeirra gert upptækt.

Kristín Soffía segir að öfgarnar hafi verið miklar í þessu litla og einu ríkasta landi í heimi. „Ég hitti einu sinni sjeik á bar sem kom akandi að barnum á Harley Davidson mótorhjóli og með konuna sína aftan á hjólinu og lífverði með í för. Hann sagði mér í óspurðum fréttum að hann ætti blettatígur og fleiri en eitt. Hann sagðist líka hafa átt ljón en hann hafi því miður orðið að skjóta það þegar það réðst á vin hans, ekki fyrr,“ segir Kristín Soffía og horfir alvarleg á blaðamann en í augunum sést húmorinn og glettnin en hún heldur aftur af hlátrinum, kannski af kurteisi eða virðingu við sjeikinn og vin hans sem ljónið réðst á.

Kristín Soffía Þorsteinsdóttir, eiginkona Ólafs Stefánssonar handboltamanns, er í ítarlegu viðtali í nýjasta tölublaði Eftir vinnu . Í blaðinu segir hún frá því hvernig það er að láta handboltaferil ráða búsetu hverju sinni, uppvextinum og hver það var sem ákvað að fjölskyldan skyldi flytja heim til Íslands.

Fylgist með Eftir vinnu hér á Facebook .