Rektor Listaháskóla Íslands hefur ráðið Kristínu Valsdóttur, tónmenntakennara í stöðu deildarforseta listkennsludeildar, að því er segir í frétt á vef skólans. Deildin verður stofnuð formlega 1. ágúst n.k.

Í fréttinni segir að tíu umsækjendur hafi verið um starfið. Sérstök dómnefnd skipuð af stjórn skólans hafi metið sex þeirra hæfa, þar af þrjá vel hæfa til að gegna starfinu miðað við starfsvið og skyldur eins og starfið var auglýst af hendi skólans.

Um Kristínu segir m.a. í fréttinni: „Kristín Valsdóttir lauk B.Ed. prófi frá Kennaraháskóla Íslands 1985, með kjörsviði í tónmenntum og hefur frá þeirri útskrift beint sjónum sínum að eflingu tónlistarkennslu í grunnskólum. Hún hefur lagt stund á nám í píanói, söng og altblokkflautu. Á árunum 1990-1992 var hún í framhaldsnámi á sviði tónlistar-og hreyfikennslu við Orff Institut, Mozarteum í Salzburg. Árið 2006 lauk Kristín M.Ed. prófi í uppeldis-og kennslufræðum frá Kennaraháskóla Íslands.“