Kristín Ýr Gunnarsdóttir hefur hafið störf sem ráðgjafi hjá samskiptafélaginu Aton.JL. Kristín er með rúmlega áratugs langa reynslu úr fjölmiðlum, en síðast starfaði hún sem fréttamaður á fréttastofu Stöðvar 2, Bylgjunnar og Vísis. Hún hefur einnig starfað sem blaðamaður á 24 stundum, Vikunni, Mannlífi og Nýju lífi ásamt því að hafa verið lausapenni fyrir Stundina.

Þá starfaði Kristín á árunum 2015 til 2018 hjá Alþýðusambandi Íslands, sem verkefnastjóri upplýsinga- og kynningarmála. Samhliða blaðamennsku starfaði Kristín í kvikmyndagerð og kom að gerð sjónvarpsþátta sem og auglýsinga.

Kristín er með diplómagráðu í kvikmyndagerð og hefur stundað fjarnám við Háskólann á Bifröst, í almannatengslum og miðlun, samhliða vinnu.

„Víðtæk reynsla Kristínar, bæði úr fjölmiðlum og upplýsinga- og kynningamálum mun koma sér virkilega vel þegar það kemur að þeirri þjónustu sem við bjóðum viðskiptavinum okkar hjá Aton.JL. Við bjóðum hana velkomna til starfa og hlökkum til samstarfsins,“ segir Ingvar Sverrisson, framkvæmdastjóri Aton.JL.

Aton.JL er samskiptafélag sem varð til með samruna ráðgjafarstofunnar Aton og auglýsingastofunnar Jónsson & Lemacks. Félagið sérhæfir sig í ráðgjöf varðandi samskipti, stefnumótun, hönnun og markaðssetningu.

Hjá Aton.JL starfa sérfræðingar með fjölbreytilegan bakgrunn sem gerir félaginu kleift að nálgast og skipuleggja samskipti viðskiptavina sinna með heildstæðum hætti. Aton.JL er til húsa að Tryggvagötu 10.