Guðmundur Arason forstjóri Securitas
Guðmundur Arason forstjóri Securitas
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Breytingar hafa orðið á hluthafahóp Securitas. Stekkur fjárfestingarfélag í eigu Kristins Aðalsteinssonar hefur eignast meirihluta í félaginu og framtakssjóðurinn Edda slhf., sem er i stýringu hjá Virðingu, hefur keypt 40% hlut.

Stekkur fjárfestingarfélag átti fyrir þriðjungs hlut í félaginu en Fagfjárfestasjóðurinn Norðurljós og AUÐUR I fagfjárfestasjóður slf. eru að selja sína hluti. Að baki Norðurljósum er Margrét Ásgeirsdóttir, fyrrverandi eiginkona Skúla Mogensen, en hún tók við hlutnum eftir skilnað þeirra eins og Viðskiptablaðið greindi frá í haust . Lykilstjórnendur Securitas verða áfram í hluthafahópi félagsins. Kaupin eru háð fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins.

„Hluthafahópurinn sem keypti Securitas árið 2010 hefur átt farsælt og árangursríkt samstarf á liðnum árum og þakka ég þeim hluthöfum sem eru að selja sinn hlut fyrir samstarfið. Það er mikilvægt fyrir Securitas að nýir hluthafar þekkja félagið vel og deila framtíðarsýn með stjórnendum félagsins og horfum við björtum augum til framtíðar með þá um borð,“ segir Guðmundur Arason, forstjóri Securitas.