Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefur skipað fyrstu stjórn Kríu sprota- og nýsköpunarsjóðs og sett reglugerð svo sjóðurinn geti hafið störf.

Stjórnina, sem er skipuð til fjögurra ára, skipa þau:

  • Ari Helgason, fjárfestir
  • Eva Halldórsdóttir, lögmaður
  • Hildur Sverrisdóttir, aðstoðarmaður ráðherra
  • Kristinn Árni Lár Hróbjartsson, stofnandi Northstack og ráðgjafi, formaður stjórnar
  • Pétur Már Halldórsson, forstjóri Nox Medical

Kría er sjálfstæður sjóður í eigu ríkisins og heyrir undir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Hlutverk Kríu er að fjárfesta í sérhæfðum fjárfestingarsjóðum svokölluðum vísisjóðum (e. venture capital funds) sem sjálfir fjárfesta í nýskapandi sprotafyrirtækjum.

Í fjármálaáætlun næstu 5 ára er samtals gert ráð fyrir um 8 milljörðum króna til fjárfestinga Kríu. Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins mun halda utan um umsýslu Kríu samkvæmt samningi við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um er grunnhugmyndin að Kríu að fyrirmynd umgjarðar um stuðning við nýsköpun í Ísrael þar sem Yozma sjóðurinn hefur starfað frá 1993 á svipaðan hátt. Fiskifréttir sögðu einnig frá fjárfestingastefnu sjóðsins , m.a. hvernig fyrirkomulagið megi rekja til hvalveiða 19. aldar.

„Ég er stolt og glöð með að Kría hefur nú hafið sig til flugs. Kría verður til þess að þroska fjárfestingarumhverfi sprota- og nýsköpunarfyrirtækja á Íslandi, líkt og sambærilegir sjóðir erlendis hafa gert. Ég er viss um að Kría muni stuðla að uppbyggingu, vexti og aukinni samkeppnishæfni atvinnulífsins. Nú þegar má sjá merki um að nýsköpunarumhverfið sé að taka komu Kríu fagnandi þó endanleg áhrif muni ekki koma i ljós fyrr en eftir nokkur ár. Ég óska fyrstu stjórn Kríu velfarnaðar og hlakka til að fylgjast með Kríu hjálpa nýsköpunarumhverfinu að vaxa og dafna enn frekar,“ er haft eftir Þórdísi Kolbrúnu í fréttatilkynningu.